Samskipti smáríkja við volduga nágranna: Samanburður á stöðu Norðurlandanna, Eystrasaltslandanna og Skotlands

Föstudaginn 12. febrúar heldur Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ,  fyrirlestur sem ber heitið Samskipti smáríkja við volduga nágranna: Samanburður á stöðu Norðurlandanna, Eystrasaltslandanna og Skotlands. Fyrirlesturinn fjallar um að hvaða marki lítil ríki og ríkjahlutar eins og Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin og Skotland þurfa á skjóli voldugri ríkja að halda. Kynnt verður til sögunnar nýleg kenning í alþjóðastjórnmálum, skjólskenningin, sem notuð er til að útskýra samskipti smáríkja við stærri ríki og bera saman stöðu smáríkja í alþjóðakerfinu. Skjólskenningin heldur því meðal annars fram að lítil ríki þurfi efnahagslegt, pólitískt og félagslegt skjól stærri ríkja.  Skoðað verður hvort og þá að hvaða marki smáríki í norðanverðri Evrópu hafa leitað skjóls og hvort að kostnaður fylgi skjólinu. Einnig verður staða landanna/ríkjahlutanna gagnvart voldugri nágrönnum eins og Bretlandi, Þýskalandi og Rússlandi borin saman.
Fyrirlesturinn hefst kl. 12:00 og fer fram í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands.
Fyrirlestur Baldurs er hluti af fyrirlestraröð Stjórnmálafræðideildar og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands um ávinning og viðfangsefni samanburðarstjórnmála (sjá nánar um fræðigreinina og nýtt MA nám við HÍ hér fyrir neðan).  Fimm opnir hádegisfyrirlestrar verða haldnir á hverjum föstudegi frá 29. janúar til 4. mars, í Odda 101, í Háskóla Íslands.   
Dagskrá fyrirlestraraðarinnar er sem hér segir:
•    29. janúar: Menning, kyn og ofbeldi í leikjaveröld, Jóhanna K. Birnir, dósent við Maryland Háskóla.
•    5. febrúar: Hefur atvinnuóöryggi áhrif á kosningahegðun? Agnar Freyr Helgason, doktor í stjórnmálafræði og verkefnastjóri Þjóðmálastofnunar HÍ.
•    12. febrúar: Samskipti smáríkja við volduga nágranna: Samanburður á stöðu Norðurlandanna, Eystrasaltslandanna og Skotlands, Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.
•    19. febrúar: Óbein áhrif efnahagsmála á kosningar og þátttöku í kosningum í Evrópu, Eva Heiða Önnudóttir, nýdóktor við Stjórmálafræðideild HÍ.
•    26. febrúar: Hvar eru lögin samin? Samspil þings og stjórnar á Íslandi með samanburði við Norðurlönd, Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórmálafræðideild HÍ.
•    4. mars: Samspil þjóðernis og trúar í átökum, Jóhanna K. Birnir, dósent við Maryland Háskóla

Allir velkomnir

Nánari upplýsingar hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í síma 525 5454 eða í netfanginu sjofn@hi.is  og  á vefsíðu http://stjornsyslustofnun.hi.is/

Samanburðarstjórnmál er ein af meginundirgreinum stjórnmálafræðinnar og snúast þau um að greina og bera saman stjórnmál ólíkra ríkja í þeim tilgangi að öðlast dýpri skilning á stjórnmálum en mögulegt væri með því að skoða hvert tilfelli fyrir sig.  Um er að ræða afar víðtæka fræðigrein þar sem viðfangsefnin eru fjölbreytt og nálganirnar margvíslegar.  Samanburðarstjórnmál beina sjónum sínum m.a. að verkaskiptingu framkvæmdar- og löggjafarvaldsins, starfsemi og áhrifum hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka, kosningum, stjórnmálahegðun og viðhorfum, skipulagi og þróun ríkisvaldsins.   
Stjórnmáladeild HÍ býður upp á MA nám í samanburðarstjórnmálum frá og með næsta hausti.  Í náminu munu nemendur kynnast lykilrannsóknum í samanburðarstjórnmálum og öðlast víðtæka þekkingu á stjórnmálastofnunum, stefnuáherslum og almenningsáliti í mismunandi ríkjum, auk fjölbreyttra rannsóknaraðferða samanburðarstjórnmála.  Áhersla verður lögð á að setja íslensk viðfangsefni í alþjóðlegt samhengi og að tengja námsefnið við málefni líðandi stundar, og  námið er hvort tveggja í senn, fræðilega metnaðarfullt og hagnýtur undirbúningur fyrir fjölbreytt störf í atvinnulífinu.
Þeir sem fara í gegnum sérhæft nám í samanburðarstjórnmálum skilja öðrum betur hvernig stjórnmálastofnanir og efnahagslíf móta umgjörð stjórnmálanna og opinberar ákvarðanir. Nemendur fá því góðan skilning á gangvirki stjórnmálanna í sínu heimalandi og annars staðar. Það er þekking sem nýtist víða s.s. fyrirtækjum sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum, í utanríkisþjónustunni, í starfi fyrir hagsmunasamtök, í opinberri stjórnsýslu, fjölmiðlafólki, kjörnum fulltrúum og í rannsóknum

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is