Samspil þjóðernis og trúar í átökum

Föstudaginn 4. mars heldur Jóhanna K. Birnir, dósent í samanburðarstjórnmálafræði við Maryland háskóla, fyrirlestur sem ber heitið: Samspil þjóðernis og trúar í átökum. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:00 og fer fram í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands.
Trúrækni virðist vera að aukast víða um heim og gegna trúarbrögð vaxandi hlutverki í alþjóðlegum átökum. Hins vegar er lítið vitað um hvernig trúarbrögð stuðla að átökum. Helstu kenningar í stjórnmálafræði leggja áherslu á að átök eru líklegri á milli þjóðernishópa sem aðhyllast ólík trúarbrögð og eiga þessar kenningar í erfiðleikum með að útskýra átök milli þjónernishópa sem eru sömu trúar og tilheyra sama menningarheimi.
Í fyrirlestrinum fjallar Jóhanna um rannsókn sína um samspil þjóðernis og trúarbragða í átökum.  Hún leggur út frá nýrri kenningu um að pólitísk samkeppni innan ríkis á milli stórra þjóðernishópa sem aðhyllast sameiginlega trú auki líkur á ofbeldi.  Rannsóknin byggir á viðamikilli samanburðar- og tölfræðigreiningu á trúarbrögðum þjóðernishópa og hvernig þau skarast.  Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að líkurnar á uppreisn og borgaralegum átökum eykst verulega þegar trúarbrögð stórra þjóðernishópa skarast.

Fyrirlestur Jóhönnu er sjötti og síðasti fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Stjórnmálafræðideildar og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands um ávinning og viðfangsefni samanburðarstjórnmála (sjá nánar um fræðigreinina og nýtt MA nám við HÍ hér fyrir neðan).  Sex opnir hádegisfyrirlestrar hafa verið haldnir á hverjum föstudegi frá 29. janúar til 4. mars, í Odda 101, í Háskóla Íslands.   

Allir velkomnir
Nánari upplýsingar hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í síma 525 5454 eða í netfanginu sjofn@hi.is  og  á vefsíðu http://stjornsyslustofnun.hi.is/

Samanburðarstjórnmál er ein af meginundirgreinum stjórnmálafræðinnar og snúast þau um að greina og bera saman stjórnmál ólíkra ríkja í þeim tilgangi að öðlast dýpri skilning á stjórnmálum en mögulegt væri með því að skoða hvert tilfelli fyrir sig.  Um er að ræða afar víðtæka fræðigrein þar sem viðfangsefnin eru fjölbreytt og nálganirnar margvíslegar.  Samanburðarstjórnmál beina sjónum sínum m.a. að verkaskiptingu framkvæmdar- og löggjafarvaldsins, starfsemi og áhrifum hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka, kosningum, stjórnmálahegðun og viðhorfum, skipulagi og þróun ríkisvaldsins.   

Stjórnmáladeild HÍ býður upp á MA nám í samanburðarstjórnmálum frá og með næsta hausti.  Í náminu munu nemendur kynnast lykilrannsóknum í samanburðarstjórnmálum og öðlast víðtæka þekkingu á stjórnmálastofnunum, stefnuáherslum og almenningsáliti í mismunandi ríkjum, auk fjölbreyttra rannsóknaraðferða samanburðarstjórnmála.  Áhersla verður lögð á að setja íslensk viðfangsefni í alþjóðlegt samhengi og að tengja námsefnið við málefni líðandi stundar, og  námið er hvort tveggja í senn, fræðilega metnaðarfullt og hagnýtur undirbúningur fyrir fjölbreytt störf í atvinnulífinu.
Þeir sem fara í gegnum sérhæft nám í samanburðarstjórnmálum skilja öðrum betur hvernig stjórnmálastofnanir og efnahagslíf móta umgjörð stjórnmálanna og opinberar ákvarðanir. Nemendur fá því góðan skilning á gangvirki stjórnmálanna í sínu heimalandi og annars staðar. Það er þekking sem nýtist víða s.s. fyrirtækjum sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum, í utanríkisþjónustunni, í starfi fyrir hagsmunasamtök, í opinberri stjórnsýslu, fjölmiðlafólki, kjörnum fulltrúum og í rannsóknum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is