Forseti Íslands sem sameiningartákn þjóðarinnar

Föstudaginn 15. apríl nk. ræðir Guðni Th. Jóhannesson, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild, hugmyndina um forseta Íslands sem sameiningartákn þjóðarinnar. Í erindinu sínu ætlar hann að fjalla um þá sýn manna á forsetaembættið að það eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar, og ræða uppruna þessarar hugmyndar og hvernig hún hefur þróast í áranna rás, frá einum forseta til annars. Einnig verður fjallað um mögulega kosti og galla sem fylgja því að forseti sé framar öðru sameiningartákn frekar en virkur - og þá væntanlega umdeildur - þátttakandi í stjórnmálum og átakaefnum samtímans.  Að loknu erindi Guðni verða pallborðsumræður þar sem Hulda Þórisdóttir lektor við Stjórnmálafræðideild og Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við Lagadeild HÍ taka þátt.  Fundurinn fer fram kl. 12:00-13:00 í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands.

Fundurinn er hluti af hádegisfundaröðinni Forseti Íslands: Hvers konar embætti er þetta?  Þar greina og ræða fræðimenn við Háskóla Íslands um embætti forseta Íslands út frá sjónarhorni stjórnmála-, lög- og sagnfræðinnar. Lokafundurinn verður með pallborðsumræðum þar fræðimenn ræða kosningabaráttuna og við hverju má búast í þróun forsetaembættisins í kjölfar kosninganna út frá áherslum og gengi frambjóðenda. 

Þann 25. júní nk. ganga Íslendingar að kjörborðinu til að kjósa sér nýjan forseta.  Löngum hefur verið deilt um hvernig ber að túlka ákvæði stjórnarskrárinnar um embætti forseta Íslands og skiptar skoðanir hafa verið um hvernig forsetinn beitir valdheimildum embættisins.  Umræðan um hlutverk og völd forseta Íslands hefur verið vaxandi á undanförnum árum og ýmist er talað um pólitískan forseta eða forseta sem sameiningartákn þjóðarinnar. Má búast við að umræðan um hlutverk og valdsvið embættisins verði enn fyrirferðarmeiri nú í aðdraganda forsetakosninganna og að skiptar skoðanir verði, bæði meðal frambjóðenda sem og þjóðarinnar, um hvernig embætti forseta Íslands eigi að þróast á næstu árum.

Það eru Stjórnmálafræðideild, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, Sagnfræðistofnun og Lagastofnun við Háskóla Íslands sem standa að fundaröðinni og fjórir hádegisfundir verða haldnir fram að forsetakosningunum 25. júní nk. Allir fundirnir fara fram í Odda 101 í Háskóla Íslands og dagskrá fundaraðarinnar er sem hér segir:

·         18. mars: Forsetaembættið í stjórnskipun Íslands, Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild, og Stefanína Óskardóttir, dóesent við Stjórnmálafræðideild HÍ, ræða stjórnskipunarlega stöðu forseta Íslands við lýðveldisstofnun og hvernig hún hefur þróast undanfarin misseri.

·         15. apríl: Forsetaembættið sem sameiningartákn, Guðni Th. Jóhannesson, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild ræðir hugmyndina um forseta Íslands sem sameiningartákn þjóðarinnar. Þátttakendur í pallborðsumræðum: Hulda Þórisdóttir lektor við Stjórnmálafræðideild og Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við Lagadeild HÍ.

·         18. maí: Væntingar til forsetaembættisins, Ragnheiður Kristjánsdótttir, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, og Birgir Hermannsson, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild HÍ, ræða um væntingar til forsetaembættisins m.a. út frá lýðræðishugmyndum og í alþjóðlegum samanburði.  

·         23. júní: Forseti Íslands eftir kosningarnar 2016: Hverskonar embætti verður það? Á fundinum verður rýnt í skoðannakananir um gengi frambjóðenda og hugmyndir þeirra um hlutverk og völd forseta Íslands, sem og rætt um hvernig embættið mun þróast á næstum árum með nýjum forseta. Þátttakendur í pallborðsumræðunum: Ólafur Þ. Harðarson prófessor við Stjórnmálafræðideild, Stefanía Óskarsdóttir dósent við Stjórnmálafræðideild, Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild, og Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild.

 

Allir velkomnir

Nánari upplýsingar hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í síma 525 5454 eða í netfanginu sjofn@hi.is  og  á vefsíðu http://stjornsyslustofnun.hi.is/

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is