Forseti Íslands eftir kosningarnar 2016: Hverskonar embætti verður það?

Fimmtudaginn 23. júní verður síðasti fundurinn í fundaröðinni Forseti Íslands: Hverskonar embætti er þetta? Í fundarröðinni hafa fræðimenn við Háskóla Íslands greint og rætt um embætti forseta Íslands út frá sjónarhorni stjórnmála-, lög- og sagnfræðinnar.

Á þessum lokafundi verða pallborðsumræður  þar sem fræðimenn ræða kosningabaráttuna og við hverju má búast í þróun forsetaembættisins í kjölfar kosninganna 25. júní. Fundurinn hefst kl. 12:00 og fer fram í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands.

Á fundinum verður rýnt í skoðanakannanir um gengi frambjóðenda og hugmyndir þeirra um hlutverk og völd forseta Íslands, sem og rætt um hvernig embættið mun þróast á næstum árum með nýjum forseta. Þátttakendur í pallborðsumræðunum verða Ólafur Þ. Harðarson prófessor við Stjórnmálafræðideild, Valgerður Anna Jóhannsdóttir aðjúnkt í blaða- og fréttamennsku, Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild, og Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild.

Fundarstjóri er Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Þann 25. júní nk. ganga Íslendingar að kjörborðinu til að kjósa sér nýjan forseta.  Löngum hefur verið deilt um hvernig ber að túlka ákvæði stjórnarskrárinnar um embætti forseta Íslands og skiptar skoðanir hafa verið um hvernig forsetinn beitir valdheimildum embættisins.  Umræðan um hlutverk og völd forseta Íslands hefur verið vaxandi á undanförnum árum og ýmist er talað um pólitískan forseta eða forseta sem sameiningartákn þjóðarinnar. Má búast við að umræðan um hlutverk og valdsvið embættisins verði enn fyrirferðarmeiri nú í aðdraganda forsetakosninganna og að skiptar skoðanir verði, bæði meðal frambjóðenda sem og þjóðarinnar, um hvernig embætti forseta Íslands eigi að þróast á næstu árum.

Það er Stjórnmálafræðideild, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, Sagnfræðistofnun og Lagastofnun við Háskóla Íslands sem standa að fundaröðinni og fjórir hádegisfundir verða haldnir fram að forsetakosningunum 25. júní nk. Allir fundirnir fara fram í Odda 101 í Háskóla Íslands og dagskrá fundaraðarinnar var sem hér segir:

• 18. mars: Forsetaembættið í stjórnskipun Íslands, Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild, og Stefanína Óskardóttir, dóesent við Stjórnmálafræðideild HÍ, ræddu stjórnskipunarlega stöðu forseta Íslands við lýðveldisstofnun og hvernig hún hefur þróast undanfarin misseri.

• 15. apríl: Forsetaembættið sem sameiningartákn, Guðni Th. Jóhannesson, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild ræddi hugmyndina um forseta Íslands sem sameiningartákn þjóðarinnar. Þátttakendur í pallborðsumræðum: Hulda Þórisdóttir lektor við Stjórnmálafræðideild og Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við Lagadeild HÍ.

• 18. maí: Væntingar til forsetaembættisins, Ragnheiður Kristjánsdótttir, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, og Birgir Hermannsson, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild HÍ, ræddu um væntingar til forsetaembættisins m.a. út frá lýðræðishugmyndum og í alþjóðlegum samanburði.

• 23. júní: Forseti Íslands eftir kosningarnar 2016: Hverskonar embætti verður það? Á fundinum verður rýnt í skoðannakannanir um gengi frambjóðenda og hugmyndir þeirra um hlutverk og völd forseta Íslands, sem og rætt um hvernig embættið mun þróast á næstum árum með nýjum forseta. Þátttakendur í pallborðsumræðunum: Ólafur Þ. Harðarson prófessor við Stjórnmálafræðideild, Stefanía Óskarsdóttir dósent við Stjórnmálafræðideild, Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild, og Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild.

Hægt er að nálgast upptökur af liðnum fundum á heimasíðu Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Allir velkomnir

Nánari upplýsingar hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í síma 525 5454 eða í netfanginu sjofn@hi.is  og  á vefsíðu http://stjornsyslustofnun.hi.is/

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is