
Útgáfuboð og fyrirlestur í tilefni af útkomu 2. tbl. 13. árg. tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla (www.irpa.is) verður haldið n.k. fimmtudag þann 14. desember kl. 16:30 í stofu 101 í Odda, í Háskóla Íslands.
Við opnunina kynnir dr. Eva Marín Hlynsdóttir grein sína sem er meðal efnis í tímaritinu. Fyrirspurnir og umræður verða að loknu erindi hennar, og síðan verður boðið upp á léttar veitingar.
Grein Evu Marínar ber titilinn Aukin endurnýjun í íslenskum sveitarstjórnum: Hvað veldur? (e. Dutiful Citizen or a Pragmatic Professional? Voluntary Retirement of Icelandic Local Councillors). Endurnýjun í íslenskum sveitarstjórnum hefur farið vaxandi í síðustu þremur sveitarstjórnarkosningum. Leiða má að því líkum að nærri sex af hverjum 10 fulltrúum í sveitarstjórnum landsins hafi komið inn sem nýir fulltrúar í hvert skipti. Í grein sinni, beinir Eva Marín sjónum að starfsaðstæðum sveitarstjórnarfólks í tengslum við sjálfviljugt brotthvarf úr sveitarstjórnum. Byggir hún umfjöllun sína á niðurstöðum úr spurningakönnun sem lögð var fyrir allt sveitarstjórnarfólk vorið 2017. Niðurstöðurnar staðfesta að hlutfallslega fleiri konur en karlar hverfa almennt á brott úr sveitarstjórnum að loknu einu kjörtímabili. Þá sýndu niðurstöðurnar marktækan mun á milli kynjanna þegar kom að starfsaðstæðum innan sveitarstjórnarinnar. Enn fremur er marktækur munur á milli fulltrúa sem hyggjast hætta afskiptum af stjórnmálum og þeirra sem vilja halda áfram, hvað ýmsa þætti varðar. Munurinn endurspeglast til að mynda í stærð sveitarfélaga, ánægju með kjör og fjölda ára í sveitarstjórn. Þannig er sveitarstjórnarfólk í stærri sveitarfélögum og þeir sem eru sáttir við kjör sín líklegri til að vilja halda áfram í stjórnmálum en fulltrúar í minni sveitarfélögum eða þeir sem eru óánægðir með kjör sín. Jafnframt eru þeir fulltrúar sem lengur hafa setið í sveitarstjórn marktækt viljugri til að halda áfram pólitískum afskiptum.
Greinarnar í tímaritinu fjalla um fjölbreytt efni íslenskrar stjórnsýslu og stjórnmála frá fræðimönnum við íslenska háskóla.
Eftirfarandi ritrýndar greinar verða birtar í tímaritinu að þessu sinni:
1. Dutiful Citizen or a Pragmatic Professional? Voluntary Retirement of Icelandic Local Councillors. Höfundur: Eva Marín Hlynsdóttir
2. The Opening of Costco in Iceland: Unexpected Meanings of Globalized Phenomenon. Höfundar: Kristín Loftsdóttir og Már Wolfgang Mixa
3. Fjöldi ferðamanna og tekjur og kostnaður íslenskra sveitarfélaga. Höfundar: Vífill Karlsson, Hjalti Jóhannesson og Jón Óskar Pétursson
4. Meðhöndlun trúnaðarupplýsinga hjá löggæslustofnunum ríkisins. Höfundar: Kristín Guðmundsdóttir og Jóhanna Gunnlaugsdóttir
5. Stjórnun sérfræðinga. Fremstir meðal jafningja. Höfundar: Árelía Eydís Guðmundsdóttir og Elín Blöndal
6. Viðhorf ungs fólks til pólitískrar þátttöku. Höfundar: Ragný Þóra Guðjohnsen og Sigrún Aðalbjarnardóttir
Allir velkomnir.