Undanþáguákvæði upplýsingalaga

Stofnun stjórnsýslufræða kynnir:
 
Undanþáguákvæði upplýsingalaga
 
Námskeið haldið fimmtudaginn 21. mars 2019, kl. 9:00-12:30, í húsnæði Menntavísindasviðs HÍ við Stakkahlíð, stofa H-205 - Hamar
 

Hér er hægt að skrá sig til leiks

 
Námskeiðið stendur einnig til boða í fjarnámi fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem starfa á landsbyggðinni. Fjarnámið er sent út í beinu streymi og einnig verður upptaka af námskeiðinu aðgengileg eftir að því lýkur.
 
Umsjónarmaður og fyrirlesari er Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.
 
Þátttökugjald er kr. 17.900-
 
Í námskeiðinu verður farið yfir helstu undanþágur frá meginreglu upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum með tilliti til þess hvernig þær hafa verið skýrðar í dómaframkvæmd Hæstaréttar og úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
 
Fjallað verður um að hvaða marki stjórnvöldum kann að vera óheimilt að afhenda upplýsingar um einstaklinga á þeim forsendum að þær varði einkamálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Enn fremur verður sjónum beint að því hvenær viðskiptalegir og fjárhagslegir hagsmunir fyrirtækja geta komið í veg fyrir að stjórnvöld veiti aðgang að upplýsingum. Þá verður lýst helstu tilvikum þar sem stjórnvöldum er óheimilt að veita aðgang vegna almannahagsmuna.
 
Í námskeiðinu verður einnig fjallað um þau tilvik þar sem stjórnvöld mega bera fyrir sig leynd án þess þó að þeim sé óheimilt að veita aðgang, eins og t.d. um vinnugögn, gögn sem lögð eru fyrir ráðherra og gögn sem varða starfsmannamál. Einnig verður farið yfir helstu breytingar sem lagðar eru til í nýju frumvarpi til breytinga á upplýsingalögum.
 
Markmiðið með námskeiðinu er að þátttakendur öðlist undirstöðuþekkingu á undanþáguákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Umfjöllunin verður studd dæmum um framkvæmd laganna og þá m.a. vísað til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dóma Hæstaréttar og álita umboðsmanns Alþingis.
 
Markhópur:  Starfsmenn stjórnsýslunnar sem leysa þurfa úr álitaefnum um hvort veita eigi aðgang að upplýsingum. Fjölmiðlamenn, fræðimenn og allir aðrir sem áhuga hafa á að nýta sér lögin til að kynna sér gögn og upplýsingar í vörslum stjórnvalda.   
 
Kjartan Bjarni er dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, en hann hefur áður starfað sem formaður rannsóknarnefndar Alþingis, aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis og sem lögfræðingur við EFTA-dómstólinn. Kjartan hefur kennt stjórnsýslurétt og opinberan starfsmannarétt við Háskóla Íslands frá 2004 en hann var einnig dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2016-2018.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is