Markmið og hlutverk

Markmið setursins er að styrkja sveitarstjórnarstigið á Íslandi með markvissum rannsóknum á sveitarstjórnarstiginu og með námi og fræðslu sem styður við fagþróun í stjórnsýslu sveitarfélaga og þéttbýlisfræðum. 
 
Rannsóknasetrið er rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun og tilgangur þess er að auka hagnýta og fræðilega þekkingu á sveitstjórnarmálum og samspili sveitarstjórnarmála og byggðaþróunar. Hlutverk setursins er að efla og styðja við rannsóknir á sviði sveitarstjórnarmála um allt land og er horft til ólíkra forma samfélagsgerða m.t.t bæja og borgar. .
 
Auknar kröfur í skipulags- og umhverfismálum kalla á meiri þekkingu á starfsemi stjórnsýslunnar og eykst álag á stjórnendur og starfsfólk í samræmi við stærri og flóknari verkefni. Með því að efla rannsóknir og auka bæði hagnýta- og fræðilega þekkingu má styrkja faglega þróun innan stjórnsýslu sveitarfélaganna víðs vegar um landið.
 
Rannsóknasetrið heldur utan um rannsóknir og fræðslu á sviði sveitarstjórnarmála ásamt því að sinna ákveðnu þjónustuhlutverki fyrir sveitarstjórnarstigið. Málefni sveitarfélaganna í víðu samhengi eru í brennidepli. Þannig er horft til samspils dreifbýlis og þéttbýlis ásamt byggða- samgöngu- og samskiptamálum og áhrifum þeirra á samfélög og atvinnulíf út frá sjónarhorni sveitarstjórnarstigsins.
 
Í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands verður unnið að því að byggja upp og þróa sérstaka námslínu í framhaldsnámi í opinberri stjórnsýslu (MPA). Auk þess verður lögð áhersla á að auka vægi endurmenntunar fyrir starfsfólk stjórnsýslu sveitarfélaganna og fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum.
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is