Ómar H. Kristmundsson skipaður í starfshóp um endurskipulagningu innan Stjórnarráðs Íslands

Ómar H. Kristmundsson, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur verið skipaður af forsætisráðherra í starfshóp sem ætlað er að gera tillögur um endurskipulagningu þróunar-, umbóta- og hagræðingamála hjá ríkinu sem tengjast stjórnsýsluumbótum, rafrænni stjórnsýslu, mannauðsmálum og stjórnun stofnana.

Aðdragandann að skipun starfshópsins má rekja til samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.  Þar er kveðið á um að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir umtalsverðum stjórnkerfisbreytingum og umbótum í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.

Starfshópnum er m.a. ætlað að greina núverandi stöðu mála og gera tillögu um hvernig verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands skuli háttað. Einnig skal nefndin gera tillögu um hvaða verkefni eiga heima utan ráðuneyta svo sem stofnana eða annarra aðila.

Auk Ómars, sem jafnframt er formaður starfshópsins, eru í hópnum þau Arnar Þór Másson, Guðbjörg Sigurðardóttir og Halla Björg Baldursdóttir sem tilnefnd voru af forsætisráðuneytinu, Angantýr Einarsson og Gunnar Björnsson samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytisins. Með starfshópnum starfa einnig Anna Kristín Ólafsdóttir og Haukur Arnþórsson.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is