Stofnun ársins - Styrkur til ritunar lokaritgerðar meistaranema í Opinberri stjórnsýslu

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu, í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ, bjóða MPA nemum sem lokið hafa a.m.k. 30 ECTS einingum að sækja um 750.000 kr. námsstyrk við ritun lokaritgerðar um efni sem tengist könnun sem liggur til grundvallar á vali Stofnunar ársins og Stofnunar ársins Borg og Bær. Sjá nánar um könnunina hér fyrir neðan. Umsóknarfrestur er til 30. janúar nk
 
Um getur verið að ræða ritgerð út frá kenningum um mannauðsstjórnun, um vinnustaðamenningu, um viðhorf til starfsþróunar/endurmenntunarþarfar vinnustaða eða um réttindamál á opinberum vinnumarkaði. 
 
Við mat á ritgerðunum verður auk almennra atriða um gæði ritgerða horft til notagildis rannsóknarinnar, hvert fræðilegt og hagnýtt gildi hennar er og hvernig hún getur nýst til að bæta starfsumhverfi þeirra starfsmanna sem eru félagsmenn Sameykis. Umsókn sem sendist á Margréti S. Björnsdóttur (msb@hi.is) fylgi greinargerð um viðfangsefnið og rannsóknarspurningar og þær fræðikenningar sem stuðst verður við, svo og hver verði leiðbeinandi við ritun ritgerðarinnar, auk menntunar og reynslu umsækjanda.
 
Stofnun ársins: Árlega hefur Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu staðið fyrir vali á Stofnun ársins meðal ríkisstofnana, stofnana Reykjavíkurborgar auk tengdra aðila. Könnunin og valið á Stofnun ársins er eitt af mikilvægari verkefnum Sameykis sem stéttarfélags. Könnunin er unnin í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og VR gerir sambærilega könnun. Hún er því mikilvægt innlegg í umræðuna um starfsumhverfi og vellíðan starfsmanna. Eitt af markmiðum Sameykis með vali á Stofnun ársins er að koma af stað umræðu um og bæta starfskjör og starfsskilyrði félagsmanna ásamt því að láta þeim í té upplýsingar um starfsumhverfi stofnana svo þeir geti borið stöðu sína saman við stöðu mála á sambærilegum vinnustöðum. Könnunin gefur mjög góða mynd af starfsumhverfi og starfsaðstæðum starfsmanna á opinberum vinnumarkaði. Aðgangur að niðurstöðum könnunar er í rafrænu kerfi hjá Gallup. 
 
Styrkupphæðin kr. 750.000.- dreifist á þrjá mánuði. Við skattframtal er heimilt að draga frá námsgjöld og bókakostnað.
 
Skipuð hefur verið dómnefnd og í henni sitja þau Jóhanna Þórdórsdóttir fræðslustjóri Sameykis, Guðmundur Freyr Sveinsson deildarstjóri kjaradeildar Sameykis og þau Gústaf Adolf Skúlason forstöðumaður og Margrét S. Björnsdóttir MPA fulltrúar Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Tilkynnt verður um hver hlýtur styrkinn á málþingi um mannauðsmál 17. febrúar nk., en þann dag er einnig tilkynnt um hver hlýtur titilinn Stofnun ársins og Stofnun ársins Borg og Bær 2021.
 
23. nóvember 2021 - 15:30
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is