Þrír kennarar á Félagsvísindasviði skipaðir í nefnd af forsætisráðherra

Þrír kennarar á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor við stjórnmálafræðideild, Ómar H. Kristmundsson dósent við stjórnmálafræðideild og Trausti Fannar Valsson lektor við lagadeild hafa verið skipaðir af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í nefnd óháðra sérfræðinga sem mun gera tillögur til ríkisstjórnar og Stjórnarráðsins um viðbrögð af hálfu stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sbr. lög nr. 142/2008, til þess að rannsaka aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Eins og kunnugt er mun rannsóknarnefndin skila ítarlegri skýrslu til Alþingis í lok febrúar og á vettvangi forsætisráðuneytisins hefur verið fjallað um hugsanleg viðbrögð við atriðum sem fram kunna að koma í skýrslunni og beinast að stjórnsýslunni og starfsháttum Stjórnarráðsins.

Auk Gunnars Helga, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Ómars og Trausta Fannars sitja í nefndinni þær Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og Kristín Benediktsdóttir, hdl.

Nefndin skal taka skýrslu rannsóknarnefndarinnar til ítarlegrar umfjöllunar og meta þau atriði sem beinast kunna sérstaklega að stjórnsýslunni og starfsháttum Stjórnarráðsins. Nefndin skal svo fljótt sem auðið er gera tillögur til forsætisráðherra og ríkisstjórnar um hugsanleg viðbrögð við þeim í samræmi við ábendingar rannsóknarnefndarinnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is