Fækkun ráðuneyta úr tíu í átta

Alþingi samþykkti 11. maí síðastliðinn þingsályktunartillögu forsætisráðherra um að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Samþykktin felur það í sér að ráðuneytum mun fækka úr tíu í átta þann 1. september næstkomandi.

Í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis kemur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Í stað efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis kemur fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Í stað umhverfisráðuneytis kemur umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Áður höfðu félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sameinast í velferðarráðuneyti. Sömuleiðis höfðu og dóms- og mannréttindamálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sameinast í innanríkisráðuneyti 1. janúar 2011.

Í frétt á vefsíðu forsætisráðuneytisins um breytingarnar segir að markmið þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu á kjörtímabilinu sé að gera það skilvirkara og skerpa og skýra verkaskiptingu milli ráðuneyta. Samhliða fækkun ráðuneyta hafa verið gerðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem m.a. fela í sér aukna áherslu á samvinnu og samstarf milli ráðuneyta.

Frétt um fækkun ráðuneyta á vef forsætisráðuneytisins 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is