Opinn fyrirlestur 27. júní kl. 12-13: Leyna stjórnvöld mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning?

Leyna stjórnvöld mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning? -  Kynning á niðurstöðum nýrrar viðhorfskönnunar er yfirskrift erindis Jóhönnu Gunnlaugsdóttur, prófessor í upplýsinga- og skjalastjórn  sem haldið verður miðvikudaginn 27. júni 2012 kl. 12-13 á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.  Jóhanna fjallar um niðurstöður nýrrar könnunar sem gerð var vorið 2012 um viðhorf fólks til upplýsingagjafar opinberra aðila (ríkisstjórnar, ráðuneyta, sveitarfélaga og stofnana þeirra, þjónustustofnana á vegum ríkisins og eftirlitsstofnana á vegum ríkisins).

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hug almennings til upplýsingagjafar þ.e. hvort svarendur teldu opinberu aðilana leyna mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning og varða almannahagsmuni (umhverfis-, velferðar-, heilbrigðis- og menntamál) svo og opinber útgjöld, þ.e. úthlutun á almannafé (styrki og fjárveitingar, verksamninga til opinberra verkefna o.þ.h.).

Samkvæmt íslenskum lögum er stjórnvöldum skylt að virða upplýsingarétt almennings. Þeim ber að heiðra rétt borgaranna til aðgengis að upplýsingum sem liggja hjá stjórnvöldum, þó með vissum takmörkunum sem varða einka- og almannahag. Mörg dæmi sýna að upplýsingarétturinn hefur ekki verið virtur.Í Rannsóknarskýrslu Alþingis frá 2010 eru tiltekin fjölmörg atriði þessa efnis. Í rannsókn Capacent Gallup (Þjóðarpúls Gallup frá mars 2012, traust til stofnana) kemur m.a. fram að einungis 10% svarenda ber mikið traust til Alþingis og 15% til borgarstjórnar Reykjavíkur. Skv. niðurstöðum könnunar töldu alls 90% svarenda að ríkisstjórnin leyni almenningi upplýsingum sem varða almannahagsmuni oft eða stundum, 88% ráðuneytin, 78% sveitarfélög og stofnanir þeirra, 76% þjónustustofnanir á vegum ríkisins og 80% eftirlitsstofnanir á vegum ríkisins.

Fundarstjóri er Ásta Möller, forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Jóhanna Gunnlaugsdóttir er prófessor í upplýsinga- og skjalastjórn og rafrænum samskiptum hjá skipulagsheildum. Hún hefur starfað við HÍ sl. 11 ár, en áður vann hún hjá eigin ráðgjafarfyrirtæki á sviði upplýsingamála, Gangskör sf., í u.þ.b. 20 ár og vann með liðlega 100 fyrirtækjum og stofnunum.

Glærur Jóhönnu frá fundinum

Frétt um niðurstöður Jóhönnu á RÚV 27.06

Umfjöllun Spegilsins um niðurstöður Jóhönnu 27.06

Myndir af fyrirlestrinum má finna á Facebook síðu Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is