Hvernig má ná betri árangri í stjórnun starfsmannamála í eigin stofnun?

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana og fjármála- og efnahagsráðuneytið bjóða uppá vinnusmiðju fyrir yfir- og millistjórnendur opinberra stofnana.

Byggt á greiningu á stöðu mannauðsstjórnunar í eigin stofnun, tækifæri til úrbóta.

Fimmtudaginn 4. október kl. 13:00-17:00 í húsnæði Endurmenntunarstofnunar HÍ við Dunhaga

Skráning. Verð kr. 16.500,-  

Vinsamlega skráið þátttöku í síðasta lagi á hádegi þriðjudaginn 2. október þar sem gert er ráð fyrir að þátttakendur fái senda greiningu á stöðu eigin stofnunar í mannauðsmálum úr könnun SFR og fjármálaráðuneytisins fyrir námskeiðið. (sjá hér fyrir neðan).   

Leiðbeinendur: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Ágústa H. Gústafsdóttir, sérfræðingur í  starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Dr. Tómas Bjarnason frá ráðgjafafyrirtækinu Capacent. Gestafyrirlesari er Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Mannauðsmál er mikilvægur þáttur í starfi stjórnenda.  Rannsóknir sína að stjórnendur verja miklum hluta af vinnutíma sínum í starfsmannamál s.s. stuðning við starfsfólk, samskiptavandamál og lausn ágreiningsmála, svo og ráðningar, val og uppsagnir starfsmanna svo fátt sé nefnt.*

Vinnusmiðjan er sérstaklega skipulögð fyrir forstöðumenn, mannauðsstjóra og aðra yfirmenn opinberra stofnana sem hafa mannaforráð.  Forstöðumenn sem tóku sambærilegt námskeið á síðasta ári mæltu sérstaklega með að námskeiðið yrði haldið fyrir aðra stjórnendur.

Markmið vinnusmiðjunnar er að gefa þátttakendum tækifæri að skoða stöðu mannauðsmála í eigin stofnun og fá hugmyndir og hagnýt ráð um leiðir til skapa enn öflugri liðsheild og ná betri árangri í rekstri stofnunarinnar með viðurkenndum aðferðum mannauðsstjórnunar. Byggt er að greiningu á niðurstöðum könnunar SFR og fjármálaráðuneytisins um Stofnun ársins 2012 sem kynnt var fyrr á þessu ári, en hún veitir verðmætar upplýsinga um stöðu mannauðsmála í viðkomandi stofnun.** Þátttakendur fá afrit af greiningu á eigin stofnun sent til sín fyrir námskeiðið, sem trúnaðarmál, sem þeir geta kynnt sér nánar og haft til undirbúnings í starfi í vinnusmiðjunni.  Í vinnusmiðjunni verður farið yfir þá 8 þætti sem sérstaklega voru til skoðunar í könnuninni og  gefst forstöðumönnum tækifæri til að ráðfæra sig við færustu sérfræðinga á sviði mannauðsstjórnunar um aðferðir til úrbóta. 

* Forstöðumannakönnun 2011 sem byggir á viðhorfskönnun meðal forstöðumanna stofnana ríkisins.

**172 stofnanir ríkisins tóku þátt í könnuninni og hafa stofnanir aðgang að  greiningu  á niðurstöðum könnunar til frekari skoðunar.  Tilgangur könnunarinnar er að gera stjórnendum kleift að vinna markvisst að útbótum í starfsmannamálum þar sem þeirra er þörf.    Í könnuninni voru átta þættir mældir:  Trúverðugleiki stjórnenda, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunarinnar og ánægja/stolt.   

Leiðbeinendur

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Helstu rannsóknarsvið hans eru á sviði. mannauðsstjórnunar og samskipta á vinnumarkaði. Hann hefur ritað fjölmargar greinar um mannauðsstjórnun. Samhliða kennslu og rannsóknum hefur hann sinnt ráðgjöf í mannauðsstjórnun fyrir fjölmörg fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Gylfi er stjórnmálafræðingur og með meistaragráðu í vinnumarkaðsfræði (Industrial Relations).   Hann hefur m.a. starfar sem ráðgjafi hjá Hagvangi, fræðslustjóri hjá VR og stjórnendaþjálfari hjá IMG. Gylfi hefur kennt mannauðsstjórnun í MS og  MBA námi í viðskiptafræði síðustu ár.

Ágústa H. Gústafsdóttir er sérfræðingur í starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Helstu verkefni hennar lúta að gerð, framkvæmd, úrvinnslu og kynningu kannana. Mótun verkferla og reglna fyrir stofnanir, svo sem vegna mannaflaspár, samsetningu launa, ráðninga, starfsþróunar, starfslýsinga, starfsmannasamtala, skilgreiningu frammistöðumatsþátta, starfsloka, samskipta á vinnustað og eineltis. Samhliða starfi sínu hjá ráðuneytinu hefur Ágústa kennt í aðferðafræði og mannauðsstjórnun í MS námi í Háskólanum á Bifröst og Háskóla Íslands. Jafnframt starfaði Ágústa áður sem ráðgjafi hjá PricewaterhouseCoopers og IBM sem ráðgjafi á starfsmannasviði. Ágústa hefur haldið fjölda erindi á sviði mannauðsstjórnunar fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Hún er BA í sálfræði og með meistaragráðu í mannauðsstjórnun.

Dr. Tómas Bjarnason hefur starfað hjá Capacent Gallup frá árinu 2000 við starfsmanna- og kjararannsóknir. Hann er sviðsstjóri starfsmanna- og kjararannsókna og með doktorsgráðu í félagsfræði frá Gautaborgarháskóla.

Guðrún Ragnarsdóttir er framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun breytinga en sl. 15 ár hefur unnið að ýmsum verkefnum á því sviði m.a. sem gæðastjóri hjá Landsvirkjun, forstöðumaður gæðastjórnunar hjá Íslandsbanka og sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs BYKO.  Guðrún er viðskiptafræðingur og MBA.  Hún hefur jafnframt starfað við ráðgjöf, námskeiðahald og skrifað greinar um stjórnun.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is