Frestur til að skila fræðigreinum í hausthefti Stjórnmála og stjórnsýslu

Veftímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla er gefið út tvisvar á ári á heimasíðu þess, www.stjornmalogstjornsysla.is. Frestur til að skila fræðigreinum í hausthefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýslu er til 15. október  2012, en frestur til að skila almennum greinum er til 15. nóvember 2012.  

Ritrýndar fræðigreinar hvers árgangs eru gefnar út á prentuðu formi í febrúar árið eftir.   Tilgangur tímaritsins er að gefa út og gera aðgengilegt þverfræðilegt efni um rannsóknir á sviði stjórnmála, stjórnsýslu og alþjóðamála með það fyrir augum að auka við þekkingu og efla faglega umræðu á þessum sviðum á Íslandi.  Ritrýndi hluti tímaritsins gegnir hlutverki fræðitímarits í stjórnmála- og stjórnsýslufræðum.  Í veftímaritinu er  stjórnmála- og stjórnsýslufræðingum, félagsfræðingum, hagfræðingum, heimspekingum, lögfræðingum, sagnfræðingum, viðskiptafræðingum og öðrum þeim er stunda rannsóknir og skrifa um þau viðfangsefni gefinn kostur á að gera rannsóknir sínar aðgengilegar og auka þannig fræðilega umfjöllun.

Greinar sem birtast í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla eru metnar til fimmtán (15) stiga í Matskerfi opinberra háskóla. Matskerfisnefnd, sem skipuð er fulltrúum opinberu háskólanna, auk fulltrúa frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti hefur metið tímaritið með hliðsjón af nýju matskerfi fyrir opinbera háskóla sem staðfest var 30.desember 2009. Matskerfið gerir ráð fyrir því að íslensk tímarit séu flokkuð í samræmi við það hversu strangar vísindalegar kröfur tímaritin gera við mat á greinum sem þeim berast til birtingar, en þau þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði um ritstjórnarhætti sem sett eru fram. Íslensk tímarit sem uppfylla viss ófrávíkjanleg skilyrði geta raðast í þrjá flokka, þar sem ritrýndar tímaritsgreinar gefa 5, 10 eða 15 stig. Ritrýndar greinar sem birtast í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla eru því metin í hæsta flokk, en matskerfið er grundvöllur mats á störfum akademískra starfsmanna við opinbera háskóla.

Á vefsvæði timaritsins er að finna leiðbeiningar fyrir höfunda greina.

Almennu greinarnar fjalla um sömu viðfangsefni en eru opinn vettvangur.  Í vefritinu eru eftirtaldir efnisflokkar:  ritrýndar fræðigreinar, greinar almenns eðlis og bókadómar,  auk tengla á samtök stjórnmála- og stjórnsýslufræðinga hérlendis og erlendis og fleiri innlendra og erlendra upplýsingaveita á sviði stjórnsýslu og stjórnmála.

Veftímarritið er jafnframt gefið út í enskri útgáfu (Icelandic Review of Politics and Administration), sjá flipann English í hægra horni vefsins.

Þegar hafa verið gefin út fjórtán tölublöð á vefnum og ritrýndar greinar  hvers árgangs verið prentaðar og eru þær bækur fáanlegar hjá Háskólaútgáfunni, helstu bókabúðum og  bókasöfnum,   Einnig er hægt að gerast áskrifandi að prentaðri útgáfu af ritrýndum greinum sem birtast í veftímaritinu og kemur hún út einu sinni á ári.  7. árg. 2011 kom út í ársbyrjun og kostar áskrift 4200,-  

Hægt er að gerast áskrifandi og panta eldri árganga tímaritsins með því að senda póst á netfangið astam@hi.is.   

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is