Skýrsla umboðsmanns Alþingis komin út

Í skýrslunni eru birt stutt ágrip af álitum og öðrum völdum niðurstöðum frá árinu 2011 sem síðan er hægt að nálgast í heild sinni á heimasíðu embættisins. Þá er lögð áhersla á að greina frá viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum sem umboðsmaður hefur beint til þeirra í tilefni af athugunum sínum. Á grundvelli þeirra upplýsinga er Alþingi betur í stakk til þess búið að taka afstöðu til þess hvort það telur tilefni til þess að fjalla frekar um þau viðbrögð.Í I. kafla skýrslunnar er fjallað um störf umboðsmanns Alþingis á árinu 2011. Á meðal þess sem umboðsmaður gerir að sérstöku umfjöllunarefni vegna starfsins á árinu 2011 er sá vandi sem hefur steðjað að starfi hans vegna verulegrar fjölgunar nýrra mála og aukins álag á starfsemina síðustu misseri. Á árinu 2011 bárust umboðsmanni 40% fleiri mál heldur en á árinu 2010. Þetta hefur leitt til lengri málsmeðferðartíma og þá sérstaklega þeirra mála sem taka hefur þurft til ítarlegri athugunar og ljúka með álitum og lengri bréfum. Af hálfu umboðsmanns er einnig bent á að ekki hefur verið unnt að sinna frumkvæðisathugunum sem skyldi. Umboðsmaður fjallar sérstaklega í skýrslunni, á bls. bls. 20–29, um þann vanda sem hann telur að nú sé uppi í starfi umboðsmanns vegna mikillar fjölgunar kvartana undir fyrirsögninni „Breytt embætti – þörf á stefnumörkun Alþingis?“ Þar lýsir umboðsmaður því að brýnt sé að Alþingi taki sem fyrst afstöðu til þess hvaða fjármunum eigi að verja til starfseminnar og þar með hvaða möguleika umboðsmaður á að hafa til þess að rækja hlutverk sitt gagnvart borgurunum.Uppbygging og efnistök skýrslunnar eru með svipuðum hætti og áður. Í I. hluta skýrslunnar er fjallað um fjölda mála sem hafa verið til meðferðar, helstu viðfangsefni á árinu, mál sem umboðsmaður hefur tekið til athugunar að eigin frumkvæði, erlent samstarf og fundi. Í II. hluta skýrslunnar er að finna tölulegar upplýsingar og greiningu á skráðum og afgreiddum málum á árinu 2011. Þar er einnig fjallað um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns og greint frá tilkynningum um meinbugi á lögum eða stjórnsýsluframkvæmd. Í III. hluta er að finna yfirlit yfir álit og aðrar niðurstöður á árinu 2011. Í IV. hluta er að finna upplýsingar vegna áður afgreiddra mála og í V. hluta er að lokum að finna skrá yfir þau mál sem hafa birst í skýrslum umboðsmanns Alþingis í númeraröð.

Skýrsluna má nálgast á pdf-skjali hér (854 kB) eða á pappírsformi á skrifstofu umboðsmanns að Álftamýri 7 í Reykjavík.

 

Heimild: http://www.umbodsmaduralthingis.is/article.aspx?catID=49&ArtId=71&showDa...

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is