Áfangaskýrsla stýrihóps um rafræna stjórnsýslu

Stýrihópur um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði sem innanríkisráðherra skipaði í júní 2012 hefur skilað ráðherra áfangaskýrslu með tillögum sínum. Í áætlun hópsins var gert ráð fyrir því að nefndin fjallaði í það minnsta um sex megin viðfangsefni og liggja fyrir tillögur um tvö þeirra í þessari áfangaskýrslu. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi leggur stýrihópurinn til að rekstur og þjónusta rafrænnar auðkenningar fyrir opinbera vefi verði miðlæg á vefsvæðinu Ísland.is. Stýrihópurinn leggur jafnframt til að Þjóðskrá Íslands verði falið að reka og þróa auðkenningarþjónustu Ísland.is í eigu ríkisins og annist þróunarstarf og samræmingu á þessu sviði. Þessi þjónusta verði í boði fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að sækja þjónustu á vegum opinberra aðila og eiga við þá samskipti. Jafnframt standi auðkenningarþjónustan til boða fyrir þjónustu einkaaðila. Í öðru lagi leggur stýrihópurinn til að samhliða verði unnið að því að efla málaflokk upplýsingasamfélagsins enn frekar með því að  verkefni sem tengjast málefnum þess og ekki síst öryggismálum, m.a. auðkenningu og eftirliti og frumkvæði varðandi almennt netöryggi, sé á hendi eins ráðuneytis. Í þriðja lagi leggur stýrihópurinn til að ráðist verði í tilraunaverkefni sem miðar að því að styðja við þróun rafræns lýðræðis í sveitarfélögum. Í þeim tilgangi hefur hópurinn unnið frumvarp sem heimilar ráðherra, að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar, að víkja frá ákvæðum X. kafla sveitarstjórnarlaga þannig að íbúakosning fari eingöngu fram með rafrænum hætti og eða kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn. Verkefnið gæti rutt braut fyrir innleiðingu rafrænna lausna við lögbundnar kosningar.

Vinna stýrihópsins við mótun tillagna varðandi önnur verkefni heldur áfram. Hópurinn mun vinna að frekari greiningu á þeim áskorunum og tækifærum sem þar eru og ráðgerir að setja fram tillögur þar að lútandi á næstu mánuðum.

 

Heimild: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28302

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is