Opinn fundur: Átök og áherslur á vinstri væng stjórnmálanna fyrr og nú

Opinn fundur miðvikudaginn 21. nóvember n.k. kl. 12:00- 13:15 í Lögbergi stofu 101 Háskóla Íslands í tilefni af útkomu sjálfsævisögu Svavars Gestssonar „Hreint út sagt“.  Á fundinum ræðir Svavar um bók sína við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing og Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðing auk þess sem vænst er þátttöku fundargesta í umræðum.

Svavar Gestsson var forystumaður í stjórnmálum á vinstri væng íslenskra stjórnmála um áratugaskeið. Hann átti sæti á Alþingi frá 1978-1999 og var ráðherra í þremur ríkisstjórnum á tímabilinu 1978-1991 á miklum umbrotatímum í íslenskum stjórnmálum.  Hann hvarf af þingi í þann mund er væntingar margra um sterkt sameinað afl á vinstri kanti stjórnmálanna áttu að rætast þegar Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn og Kvennalistinn buðu fram undir nafni Samfylkingar í þingkosningunum 1999. En þá varð einnig Vinstrihreyfingin grænt framboð til.

Í bókinni má m.a. lesa um átök um leiðir og ágreining um stíla innan Alþýðubandalagsins, auk þess sem hugmyndafræðileg þróun á vinstri væng stjórnmálanna á þessu tímabili í íslenskri stjórnmálasögu er til umfjöllunar.  Um hvað var deilt og af hverju?  Af hverju mistókst að sameina vinstri menn í einum stjórnmálaflokki? Í hvaða flokki slær hjarta Svavars nú?

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is