Stjórnarskráin og lýðræðið fundur 16. janúar kl. 12-14-UPPTAKA

Upptaka af fundinum 16. janúar er HÉR


4.  fundur af sjö í fundaröð Lagadeildar, Stjórnmálafræðideildar og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands í samvinnu við Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands verður haldinn  miðvikudaginn 16. janúar kl. 12-14 í Hátíðasal Háskóla Íslands.  Yfirskrift fundarins er  Stjórnarskráin og lýðræðið.  Á fundinum verður sjónum sérstaklega beint að kosningakerfinu, persónukjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum.  


Framsögumenn og þátttakendur í pallborði eru, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands,  Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst og  Ágúst Þór Árnason, deildarforseti lögfræði við Háskólann á Akureyri.    Ragnhildur Hegladóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík  stjórnar fundinum.


Ólafur Þ. Harðarson mun í sinni umfjöllun ræða kosningakerfi, vægi atkvæða og persónukjör.


Í erindi sínu sem ber heitið „Þjóðaratkvæðagreiðslur og beint lýðræði“  mun Gunnar Helgi Kristinsson m.a. fjalla um hvaða vandamál þurfi að skoða ef færa á stjórnskipunina meira í áttina að beinu lýðræði.


Yfirskrift fyrirlestrar Jóns Ólafssonar er „Geta þjóðaratkvæðagreiðslur ógnað lýðræði?“ Hann mun fjalla  um ákvæði draga að nýrri stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur og þá viðleitni Stjórnlagaráðs að auka áhrif fólks á mikilvægar ákvarðanir með því að auðvelda almenningi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Rætt verður um kosti og galla þjóðaratkvæðagreiðslna og um aðrar leiðir til auka aðkomu almennings að ákvörðunum


Ágúst Þór Árnason mun í erindi sínu „Þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnarskipunarlegur stöðugleiki“ m.a. ræða um spurninguna hvort þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá geti endurskapað upphafsstöðu lýðveldisins með lögmætum hætti m.a í ljósi þess að 95% kosningabærra Íslendinga greiddu núgildandi stjórnarskrá atkvæði sitt þegar lýðveldið var stofnað 1944. Fáar, ef þá nokkur, stjórnarskrár í veröldinni geta státað af sambærilegum stuðningi. Þessi víðtæki stuðningur þings og þjóðar við grundvallarlög lýðveldisins gerir þær kröfur til breytinga að þær séu gerðar af gefnu tilefni og í góðri sátt. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is