13. febrúar kl. 12-14 Mannréttindi í stjórnarskrá- 6. fundur um stjórnarskrárbreytingar

6. fundur háskólanna um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá verður haldinn miðvikudaginn 13. febrúar  kl. 12-14 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Yfirskrift fundarins er Mannréttindi í stjórnarskrá-Samanburður við breytingar á stjórnarskrá Noregs- Er vernd mannréttinda áfátt samkvæmt núverandi stjórnarskrá?  Hvert er markmið tillagna um breytingar? Mannréttindi og náttúra-Tengsl við alþjóðlega mannréttindasamninga.

Því miður mistókst upptakan af fundinum

Framsögumenn og þátttakendur í pallborði:

1. Eivind Smith prófessor við Lagadeild Oslóarháskóla GLÆRUR

2. Björg Thorarensen prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands GLÆRUR

3. Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands GLÆRUR

Fundarstjóri er Róbert Spanó prófessor og forseti Lagadeildar Háskóla Íslands.

Mannréttindi í stjórnarskrá verður til umfjöllunar á 6. fundi háskólanna um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá miðvikudaginn 13. febrúar  kl. 12-14 í Hátíðasal Háskóla Íslands.   Horft verður m.a. til endurskoðunar á mannréttindaákvæðum norsku stjórnarskrárinnar og borið saman við aðferðir við breytingar á íslensku stjórnarskránni. Rætt verður um hvort vernd mannréttinda sé áfátt samkvæmt núverandi stjórnarskrá Íslands og hvert sé markmið tillagna um breytingar auk þess sem fjallað er um tengsl ákvæða stjórnarskrár við alþjóðlega mannréttindasamninga. Sérstakur gestur er Eivind Smith prófessor við Lagadeild Oslóarháskóla. Aðrir frummælendur eru Björg Thorarensen prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands og Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands.  Fundarstjóri er Róbert Spanó prófessor og forseti Lagadeildar Háskóla Íslands.

Eivind Smith prófessor við lagadeild Oslóarháskóla er einn fremsti fræðimaður Norðmanna á sviði stjórnskipunarréttar og hefur gefið út fjölda bóka og tímaritsgreinar um norska stjórnskipun  og stjórnskipunarkenningar í Noregi og á alþjóðlegum vettvangi.  Hann mun m.a. fjalla um  endurskoðun sem nú stendur yfir á mannréttindaákvæðum norsku stjórnarskrárinnar og bera saman við ólíkar aðferðir sem notaðar eru á Íslandi við breytingu á stjórnarskrá. Hann mun einnig ræða um tengslin á milli stjórnarskrárverndar á mannréttindum og verndar alþjóðlegra mannréttindasamninga og að hvaða leyti ákvæði alþjóðasaminga geta nýst sem fyrirmynd mannréttindaákvæða í stjórnarskrá. Þá mun hann víkja að víðtækri takmörkunarheimild á mannréttindum sem lögð er til í stjórnarskrárfrumvörpum bæði í Noregi og á Íslandi.

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands hefur um árabil rannsakað og kennt stjórnskipunarrétt við lagadeild Háskóla Íslands og helsta rannsóknarsvið hennar eru mannréttindareglur í íslenskri stjórnskipun. Hún hefur gefið út fræðirit um efnið auk fjölda greina og bókakafla á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Í erindi sínum fjallar Björg um eðli stjórnarskrárákvæða um mannréttindi og sérstöðu þeirra miðað við aðra hluta stjórnarskrár og skoða mannréttindaákvæði í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár í því ljósi. Hún mun ræða um markmið breytinganna á mannréttindaákvæðum í frumvarpinu, og hvort þau eru líkleg til að hafa raunveruleg áhrif til að efla virka vernd mannréttinda. Þá ræðir hún nokkur nýmæli frumvarpsins svo sem um skyldur sem stjórnarskrá leggur á einstaklinga og einnig ákvæði með almennri heimild til að takmarka mannréttindi.

Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands hefur um árabil lagt stund á rannsóknir á sviðum alþjóðlegra og stjórnarskrárvarinna mannréttinda.  Hún lauk doktorsprófi á sviði alþjóðlegra mannréttinda frá háskólanum í Edinborg árið 2002 og hefur birt tvö fræðirit á alþjóðlegum vettvangi auk fjölda fræðigreina og bókarkafla um mannréttindi. Oddný mun ræða um það hvers vegna ástæða er til að endurskoða mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar.  Hún mun setja ýmis nýmæli mannréttindakafla frumvarps til nýrrar stjórnarskrár í samhengi við landsrétt og alþjóðlega vernd mannréttinda og ræða athugasemdir sem fram hafa komið við frumvarpið.  Loks mun hún leggja mat á þær breytingar sem gerðar hafa verið á mannréttindakaflanum við meðferð frumvarpsins á Alþingi.  

Að fundaröðinni standa Lagadeild, Stjórnmálafræðideild og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands í samvinnu við Háskólann í Reykjavík, Háskólann í Bifröst og Háskólann á Akureyri.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is