19. febrúar Opinn fyrirlestur: Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn.

Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn. Opinn fyrirlestur Hannesar H. Gissurarsonar prófessors í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 19. febr. kl. 17-18.

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, mun flytja fyrirlestur í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála  í hátíðasal Háskóla Íslands kl. 17–18 þriðjudaginn 19. febrúar 2013.

Fyrirlesturinn nefnist „Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn“. Þar mun Hannes Hólmsteinn bregðast við þeirri hörðu gagnrýni, sem frjálshyggjan (kenning Johns Lockes og Adams Smiths) og kapítalisminn, kerfi séreignar og samkeppni, hafa sætt eftir hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu og bankahrunið íslenska. Komið hafa út fimm rit gegn frjálshyggju og kapítalisma síðustu tvö ár, Eilífðarvélin: Uppgjör við nýfrjálshyggju eftir Stefán Ólafsson prófessor og fleiri, Bankastræti núll eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund, 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá eftir kóreska hagfræðinginn Ja-Hoon Chang, Kredda í kreppu: frjálshyggjan og móteitrið við henni eftir Stefán Snævarr prófessor og Örlagaborgin: brotabrot úr afrekasögu frjálshyggjunnar eftir Einar Má Jónsson miðaldafræðing.

Hannes Hólmsteinn hyggst í fyrirlestri sínum benda á, hver sé stóra fréttin á fyrsta áratug 21. aldar, og ræða síðan fjórar fullyrðingar úr þessum fimm barátturitum: 1) að kapítalisminn sé í eðli sínu óstöðugur, eins og hin alþjóðlega lánsfjárkreppa og bankahrunið íslenska 2008 sýni best; 2) að frjálshyggjutilraunin frá 1991 á Íslandi hafi mistekist; 3) að frjálshyggjan sé siðlaus og jafnvel ómannúðleg, frjálshyggjumenn hugsi aðeins um „sálarlaust silfrið og goldinn verð“; 4) að Evrópulönd og þá sérstaklega önnur Norðurlönd séu Íslendingum betri fyrirmyndir en hin fimmtíu Bandaríki Norður-Ameríku eða tíu fylki Kanada.

Á eftir fyrirlestrinum býður Hannes Hólmsteinn til móttöku í Hámu í tilefni sextugsafmælis síns kl. 18–20.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is