Samningur um nýsköpun í opinberum rekstri

Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra og Ómar H. Kristmundsson, formaður stjórnar Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, undirrituðu í dag samning til tveggja ára um eflingu nýsköpunar í opinberum rekstri. Meginmarkmið samningsins eru að: bæta nýtingu og meðferð almannafjár með því að styðja við og stuðla að nýsköpun í opinberum rekstri; auka getu stofnana til að efla þjónustu við almenning með því að bæta hæfni og þekkingu innan ríkisstofnana og ráðuneyta á sviði nýsköpunar; stuðla að auknu samstarfi á sviði nýsköpunar á milli ríkisstofnana og aðila á einkamarkaði, styðja við rannsóknir og þróun nýsköpunar á Íslandi.
Meðal þess sem gert verður til að ná fram markmiðum samningins er aukið samstarf við erlenda og innlenda aðila á sviði nýsköpunar í opinberum rekstri.  Unnið verður að því að efla tengsl og þekkingarmiðlun á sviði nýsköpunar á milli ríkisstofnana og aðila á einkamarkaði.  Stutt verður við rannsóknir á stjórnunaraðferðum með hliðsjón af nýsköpun og þróun hins opinbera.  Auk þess verður markviss upplýsingamiðlun á netinu um nýsköpun, ráðstefnur og málþing verða haldin auk námskeiða o.fl.


Stefna fjármála- og efnahagsráðuneytisins er að vera miðstöð nýsköpunar í ríkisrekstri.  Undanfarin ár hefur ráðuneytið í samvinnu við Stjórnsýslustofnun, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Samband íslenskra sveitarfélaga, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og RANNÍS unnið að því að efla nýsköpun í opinberum rekstri.  Þetta hefur verið m.a. gert með ráðstefnuhaldi, nýsköpunarverðlaunum og opnun upplýsingagáttar þar sem margvíslegar upplýsingar um nýsköpun í opinberum rekstri má finna, sjá www.nyskopunarvefur.is.


Nýsköpun í opinberum rekstri á Íslandi er töluverð.  Í norrænni rannsókn sem gerð var árið 2010 kemur fram að um 90% opinberra stofnana á Íslandi stundi nýsköpun af einhverju tagi, sem er ívið hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum.  Í niðurstöðum könnunar á viðhorfum forstöðumanna ríkisstofnana árið 2011 kemur fram að 64% forstöðumanna telja sérstaklega mikilvægt að öðlast meiri færni í aðferðum til nýsköpunar í  opinberum rekstri og fékk þetta efni hæstu einkunn forstöðumanna.  Þetta bendir til þess að mikil áhugi sé til staðar hjá forstöðumönnum í ríkisrekstri til að takast á við og þróa frekar nýsköpunarverkefni.  Fjármála- og efnahagsráðuneytið stefnir að því að mæta þessari þörf á komandi árum.


Samningurinnn er HÉR


 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is