Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála hlýtur styrk frá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni.

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála hefur ásamt samstarfsaðilum á Norðurlöndum hlotið samkeppnisstyrk frá Norræna nýsköpunarmiðstöðinni (Nordisk Innovation Center) sem snýr að nýsköpun í heilbrigðisþjónustu með opinberum innkaupum. Verkefnið ber heitið Integrated training program and demand dialogue network for Innovative Nordic health Care Procurement.  
 
Verkefnið felur m.a. í sér að mynda samstarfsnet kaupenda og seljenda vöru og þjónustu í heilbrigðiskerfum Norðurlanda og setja upp námskeið á meistarastigi um innkaup í heilbrigðisþjónustu í samstarfi norrænna háskóla. Slíkt námsskeið byggir m.a á upplýsingaöflun um þarfir kaupenda og veitenda/seljenda heilbrigðisþjónustu og vöru. Grunnhugmyndin er að opinber innkaup á heilbrigðisþjónustu sé áhrifaríkt tæki til að stuðla að þróun og nýsköpun í opinbera geiranum jafnt sem einkageiranum. Sjá http://www.nordicinnovation.org/is/frettir/making-the-health-sector-a-mo....
 
Verkefnið sem Stofnun stjórnsýslufræða er aðili að er eitt þriggja verkefna sem hlaut styrk til þriggja ára og skiptu þau með sér 10 milljónum norskra króna. 
 
Norrænir samstarfsaðilar stofnunarinnar eru m.a. Háskólinn í Lundi, Svíþjóð, Álaborgarháskóli í Danmörku, Laurea University of Applied Sciences í Finnlandi og  BI Norwegian Business School, auk annarra samstarfsaðila sem eru kaupendur eða seljendur heilbrigðisþjónustu í viðkomandi löndum, opinberir aðilar jafnt sem einkaaðilar.  Í tengslum við verkefnið hefur Stofnun stjórnsýslufræða leitt saman aðila í íslensku stjórnsýslunni og heilbrigðiskerfinu svo að verkefnið nýtist sem best okkar samfélagi.       
 
Norræna nýsköpunarmiðstöðin, sem er ein undirstofnana Norrænu ráðherranefndarinnar, hefur sett sér þá stefnu að nýta þá gríðarlegu möguleika sem felast í styrk og stöðu norrænnar heilbrigðisþjónustu til að marka henni sess sem leiðandi aðila í þróun og nýsköpun í velferðarmálum á heimsvísu. Í því skyni er unnið að því að tengja saman opinbera og einkaaðila sem starfa á sviði heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum. Sem dæmi um vel heppnuð verkefni sem Norrænu nýsköpunarmiðstöðin hefur staðið fyrir er markaðssetning norrænnar matargerðar með framúrskarandi árangri. Nú  beinir sjóðurinn sjónum að norræni heilbrigðisþjónustu og þeim möguleikum sem hún hefur upp á að bjóða til að leita betri og nýstárlegri lausna. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is