Framtíðarsýn þjóðar í Heimskaffi í HÍ

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands mun ásamt Hugmyndaráðuneytinu fjalla um framtíðarsýn íslensku þjóðarinnar í svokölluðu Heimskaffi á Háskólatorgi laugardaginn 28. febrúar. Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, mun fjalla um sjálfbærnina en Guðjón Már Guðjónsson, frá Hugmyndaráðuneytinu, mun fjalla um þrjú megingildi sem fram hafa komið í þjóðfélagsumræðunni frá því bankakerfið féll saman.

Gildin sem verða rædd í Heimskaffinu á laugardag eru sjálfbærni, lífsgildi þjóðarinnar og nýsköpun. Endurreisnarhópur innan Hugmyndaráðuneytisins hefur að undanförnu unnið drög að framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag sem felur í sér einskonar þjóðarsátt.

Markmið þessa starfs er að móta skýra stefnu til langs tíma sem þjóðin getur fylkt sér um.
Í heimskaffinu í HÍ er ætlunin að ræða öflun efnislegra lífsgæða en þeim tengjast gildi sem varða efnahaginn ásamt þeim verðumætum og varningi sem við þurfum að tryggja okkur, með eigin framleiðslu og því sem við kaupum frá öðrum.
Hið næsta er að ræða hvernig við mótum samlíf okkar með öruggum hætti.

Þetta eru stjórnunargildin sem hugað er að þegar samlíf okkar er skipulagt og ákvarðanir eru teknar í sameiginlegum málum.

Þriðji þátturinn í umræðunni er að skýra hugmyndirnar sem byggt er á þegar hugað er að veröldinni sjálfri. Þessi gildi tengjast beint andlegu lífi okkar þar sem þekking og trú, list og fegurð, sannleikur og ást eru meðal þess sem máli skiptir.

Í lokin verða Heimskaffiumræður þar sem eftirfarandi spurningar verða ræddar: Á hvaða lífsgildum viljum við byggja upp Ísland? Hvað getum við gert núna strax til að móta framtíðarsýn okkar?

Heimskaffið á laugardag er skipulagt af Guðjóni Má Guðjónssyni frá Hugmyndaráðuneytinu og Kristínu Völu Ragnarsdóttur forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Heimskaffið hefst klukkan 4:30 og verður í stofu 103 í Háskólatorgi.

Sjá nánar: www.hugmyndaraduneytid.is og www.theworldcafe.org

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is