Þekktur baráttumaður gegn pyndingum heldur erindi á Íslandi

Justine Ijeomah, framkvæmdastjóri mannréttindasamtaka í Port Harcourt í Nígeríu, heldur erindi í hátíðarsal Norræna hússins mánudaginn 27. október klukkan 12:00. Hann hefur starfað með Amnesty International í rúmlega fimm ár.

Pyndingum og annarri illri meðferð er kerfisbundið beitt af lögreglu og her í Nígeríu. Karlmenn, konur og börn allt niður í 12 ára gömul sæta meðal annars barsmíðum, nauðgunum, kæfingu, útdrætti á tám og nöglum og skotárásum í refsingarskyni eða til að fá fram játningu. Gimmdin og umfangið er slíkt að jafnvel hörðustu rannsakendum mannréttindabrota er brugðið.

Í erindi sínu mun Justine fjalla um baráttu sína gegn pyndingum í heimalandi sínu og eigin reynslu af pyndingum og annarri illri meðferð. Í tugi skipta hefur hann orðið fyrir barðinu á lögreglu landsins, sætt pyndingum af hálfu hennar og lifað af tvær morðtilraunir. Justine segir að sú illa meðferð sem hann hafi mátt sæta á undanförnum árum hafi skilið eftir sig djúp ör, bæði á líkama og sál.

Árið 2013 úthlutuðu sænsk stjórnvöld Justine, Per Anger verðlaunin fyrir störf hans í þágu mannréttinda.

Aðgangur á erindið er ókeypis og allir velkomnir.

Erindið er á ensku.

Íslandsdeild Amnesty International, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands standa að fyrirlestrinum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is