Veiting heiðursdoktorsnafnbótar – Dr. Anna Guðrún Jónasdóttir

Þann 18. júní verður Dr. Anna Guðrún Jónasdóttir prófessor emerita í kynjafræði við Háskólann í Örebro gerð að heiðursdoktor í stjórnmála- og kynjafræði við Háskóla Íslands og verður það fyrsta heiðursdoktorsnafnbót sem veitt er í Stjórnmálafræðideild HÍ. Athöfnin fer fram í tengslum við ráðstefnuna „Vald og lýðræði á Íslandi - 100 árum síðar“. Mun hún af því tilefni halda erindi um stöf sín undir titlinum „From Iceland to International Love Studies“.

Anna Guðrún er prófessor í stjórnmála- og kynjafræði við Háskólann í Örebro. Hún er mikilvirkur fræðimaður og meðal þekktustu stjórnmála- og kynjafræðinga á Norðurlöndum. Hún lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Gautaborgarháskóla árið 1991 og hefur búið og starfað í Svíþjóð allar götur síðan. Anna Guðrún var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsgráðu í stjórnmálafræði, gegna dósentstöðu í stjórnmálafræði og prófessorsembætti í kynjafræði. Fræðimennska hennar spannar vítt svið og nær til stjórnmálafræði, félagsfræði, hagsögu, sálfræði og kynjafræði og eru merkustu rannsóknir hennar á sviði valds og kynjatengsla. Anna Guðrún er frumkvöðull í því að samþætta stjórnmálafræði og kynjafræði. Það hefur hún gert með því að byggja á arfleifð hefðbundinnar stjórnmálafræði og í senn víkka út mörk hennar. Fjöldi bóka og greina liggur eftir Önnu Guðrúnu og hefur hún leitt fjölmörg rannsóknarverkefni. Fræðileg áhrif Önnu Guðrúnar eru víðtæk á Norðurlöndum og víðar. Hún hefur með störfum sínum og rannsóknum orðið fræðafólki hvatning og innblástur. 

Nánar má lesa um fræðistörf Önnu Guðrúnar hér.

Dagskrá ráðstefnunnar má sjá hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is