Þátttakendur í Valds- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs í pallborði

Ráðstefnan Vald og lýðræði á Íslandi – 100 árum síðar verður haldin í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 18. júní næstkomandi. Dagskrá ráðstefnunnar er þríþætt: vinnustofur fræðimanna, hátíðardagskrá með framsöguerindum og pallborðsumræðum og veiting heiðursdoktorsnafnbótar. Fyrir hádegi fara fram vinnustofur fræðimanna þar sem þátttakendur í Valds- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs HÍ kynna fyrstu niðurstöður í rannsóknum sínum. Í dagskránni eftir hádegi taka fulltrúar rannsóknarverkefnisins þátt í pallborðsumræðum þar sem þau ræða margbreytileika, þátttöku og lýðræðishugmyndir í íslensku samfélagi nú 100 árum eftir að kosningaréttur varð almennur. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, mun stjórna pallborðsumræðunum en þátttakendur verða:
  1. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði
  2. Gyða Margrét Pétursdóttir, lektor í kynjafræði
  3. Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálasálfræði
  4. Eva Heiða Önnudóttir, stjórnmálafræðingur.
 
Valds- og lýðræðisrannsóknin er  rannsóknarverkefni til fjögurra ára (2014-2017) þar sem athyglinni er beint að megingerendum í valds- og lýðræðiskerfum íslensks samfélags svo sem að löggjafanum, framkvæmdavaldinu, stjórnsýslunni, stjórnmálaflokkum, hagsmunasamtökum, fjölmiðlum og almenningi. Valds- og lýðræðisrannsóknir hafa verið framkvæmdar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og taka efnisþættir íslensku rannsóknarinnar að einhverju leiti mið af norrænu rannsóknunum, en einnig er tekið tillit til sérstakra aðstæðna á Íslandi og ekki síst áhrifa hrunsins árið 2008. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, er rannsóknarstjóri verkefnisins en um 30 fræðimenn úr ólíkum deildum Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands taka þátt í verkefninu. Sjá nánar um verkefnið hér. 
 
Dagskrá ráðstefnunnar Vald og lýðræði á Íslandi – 100 árum síðar má sjá hér, en aðalfyrirlesarar verða Dr. Sarah Childs, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Bristol í Bretlandi, og Dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Auk þess mun Dr. Anna Guðrún Jónasdóttir flytja erindi um rannsóknir sínar og fræðistörf. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is