Opinn síðdegisfyrirlestur: Samspil menningar og áfallastjórnunar

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa fyrir opnum síðdegisfundi fimmtudaginn 12. nóvember 2015, kl. 17:00 - 18:00, í stofu 101 í Odda, þar sem Ásthildur Elva Bernharðsdóttir mun kynna nýútkomna bók sína undir yfirskriftinni:

Samspil menningar og áfallastjórnunar:
Hvaða áhrif hafa menningarsjónarmið á hegðun stjórnenda í viðbúnaði og viðbrögðum vegna áfalla?

Að erindi hennar loknu verður tími fyrir umræður, en fundarstjóri verður Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.

Bókaforlagið Springer hefur gefið út bókina Crisis-Related Decision-Making and the Influence of Culture on the Behavior of Decision Makers eftir Ásthildi Elvu Bernharðsdóttur. Efni bókarinnar byggir á doktorsrannsókn höfundar sem hún varði frá Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Í rannsókn var spurt hvort og hvernig greina megi áhrif menningar í viðbúnaði og viðbrögðum vegna áfalla. Gögn voru sótt í gagnabanka á vegum Moynihan Institut of Global Affairs í Maxwell School, Syracuse University sem geymir tilviksrannsóknir á áfallastjórnun vegna ólíkra áfalla sem átt hafa sér stað í fjölda ríkja. Áföllin spanna vítt svið, frá efnahags- og pólitískum áföllum til náttúruhamfara, heilsufaraldra og hryðjuverka svo nokkur séu nefnd. Leitast var við að greina hegðunarmynstur áfallastjórnenda á kerfisbundinn hátt og máta við hegðunarmynstur sem vænta má að fylgi mismunandi menningarsjónarmiðum undir fjórum þemum áfallastjórnunar: áhættuminnkandi aðgerðir, áfallastjórnendur/tegund ákvarðendahóps, upplýsingastjórnun og lærdómur.
 
Ásthildur Elva Bernharðsdóttir er cand. oecon frá Viðskiptafræðideild HÍ og doktor frá Stjórnmaálafræðideild HÍ. Hún hefur starfað við rannsóknir og kennslu við Jarðskjálftamiðstöð HÍ á Selfossi, er fyrrverandi forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Smáríkjaseturs og var fyrsti framkvæmdastjóri Gæðastjórnunar Íslands, nú Stjórnvísi. Ásthildur hefur stundað rannsóknir í Svíþjóð og Bandaríkjunum, kennt áfallastjórnun og leiðbeint nemendum bæði hér heima og við háskólann í Syracuse. Hún hefur gefið út efni um áfallastjórnun, komið saman hópi fræðimanna til rannsókna á áfallastjórnun á Íslandi og tók einnig þátt í þróun áætlana fyrir sveitarfélög er varða viðbúnað, viðbrögð og uppbyggingu vegna samfélagslegra áfalla.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is